Viðskipti innlent

Mikil tækifæri á alþjóðlegum lyfjamarkaði

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Róbert Wessman.
Róbert Wessman. Mynd/GVA
Róbert Wessman segir alþjóðlegan lyfjamarkað hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár en bjóði engu að síður áfram upp á mikil tækifæri. Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag, mun Róbert taka við sem starfandi stjórnarformaður bandaríska lyfjafyrirtækisins Alvogen Group.

„Nú eru lyfjafyrirtækin stærri í ljósi mikillar samþjöppunar undanfarin ár og fyrirtæki frá Asíu eru óðum að ná fótfestu á vestrænum mörkuðum. Því hefur fylgt harðari samkeppni. Þessar breytingar kalla á nýjar áherslur, ætli menn að ná árangri. Sérhæfing okkar mun að miklu leyti liggja í þróun lyfja sem erfið eru í þróun og framleiðslu en þar ríkir oftast minni samkeppni."

Um hluthafa og sjóðinn



Róbert segir hluthafahópinn sterkan og sameiginleg markmið eigenda sé að byggja upp leiðandi alþjóðlegt samheitalyfjafyrirtæki innan fárra ára.

„Öflugt innra starf skapar góðan grunn að vexti og munum við fyrst og fremst leggja áherslu á fjárfestingu í þróunarstarfi og byggja þannig upp til framtíðar. Við munum einnig skoða sóknarfæri inn á nýja markaði og þar erum við helst að horfa til Austur-Evrópu, Mið-Austurlanda, Asíu og Suður-Ameríku. Það eru allt markaðir í góðum vexti og við sjáum því góð tækifæri í þessu félagi," segir Róbert.



Um uppbyggingu félagsins


Róbert segir að við uppbyggingu félagsins verði tækifæri skoðuð gaumgæfilega og líkt og hann hafi gert í starfi sínu hjá Actavis mun félagið varast of mikla skuldsetningu í sínum vexti.

„Actavis var ávallt vel fjármagnað með eigin fé á móti skuldum og það er í raun ekki fyrr en félagið er tekið af markaði sem skuldsetningin eykst frá því sem áður var. Markmið sjóðsins er að auka umsvif sín á næstu árum til að styðja við framtíðarsýn eigenda um að byggja upp leiðandi alþjóðlegt félag. Við munum hinsvegar flýta okkur hægt og mitt hlutverk verður að stýra sjóðnum og fjárfestingum þess," segir Róbert.

Starfsemi á Íslandi

Róbert segist vel sjá fyrir sér ákveðnar stoðeiningar á Íslandi til framtíðar og sú staðsetning geti í raun verið góð í ljósi þess að stefnt verður að uppbyggingu í Evrópu. Áhugavert væri að nýta þá þekkingu sem hér er og vonandi skapa auknar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×