Viðskipti innlent

Koobface ormurinn gæti ógnað Facebooknotkun Íslendinga

Nýtt afbrigði af Koobface tölvuorminum er að breiðast út meðal landsmanna. Þetta er tölvuormur sem notar einkaskilaboð á Facebook til þess að dreifa sér.

Í tilkynningu frá Friðriki Skúlasyni ehf. segir að fórnarlambið fær einkaskilaboð á Facebook frá vini sem innihalda stuttan texta, líklegast á ensku, og einn tengil. Þessi tengill vísar á vefsíðu sem er hönnuð til þess að líta út eins og Youtube síða, stundum með stafsetningarvillu, eins og t.d. "Yuotube". Þar virðist myndband ætla að spilast en biður svo notandann til þess að keyra upp Setup.exe til þess að setja inn nýja útgáfu af "Flash Player" og með því að keyra þessa skrá þá smitast tölvan.

Koobface leitar svo að dúsum/smákökum/cookies sem tengjast Facebook, MySpace og jafnvel Twitter og reynir að nota þær til að skrá sig inn á þessar síður í nafni notandans til að dreifa sér áfram.

„Við hjá Friðriki Skúlasyni ehf. viljum benda fólki eindregið á að fara varlega í því að keyra skrár af vefnum og aldrei keyra tölvur óvarðar," segir í tilkynningunni.

„Við mælum með því að allir tölvunotendur keyri veiruvarnarforrit á tölvunum sínum og uppfæri bæði veiruvarnaforritið og stýrikerfið með reglulegu millibili."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×