Viðskipti innlent

Financial Times: Eigendur rændu Kaupþing

Ingimar Karl Helgason skrifar

Eigendur rændu Kaupþing. Svona hljómar fyrirsögn fréttar í þýskri útgáfu stórblaðsins Financial times í dag. Erlendir fjölmiðlar fjalla margir um útlán Kaupþings.

Í þýskri útgáfu Financial Times er greint frá risavöxnum lánum til helstu eigenda Kaupþings og tengdra aðila, sem fram koma í skýrslu sem birt var á vefsíðunni Wikileaks. Financial Times segir meðal annars frá háum lánum til fjárfestingafélagsins Exista og Roberts Tchenguiz. Stærstu eigendur bankans hafi, þegar hann hrundi, verið helstu skuldararnir. Þá er enn fremur minnt á að um þrjátíu þúsund Þjóðverjar hafi átt peninga á reikningum í Kaupþingi. Þeim verði bættur skaðinn á komandi vikum.

Breska blaðiðTelegraph segir að upplýsingar um lán Kaupþings til stærstu viðskiptavina hljóti að vera með því undarlegra sem komið hafi innan úr banka. Greint er frá helstu lánum, en einnig er haft eftir nafnlausum manni sem var í einkabankaviðskiptum við Kaupþing, að hann hafi undrast mjög að sjá þessar upplýsingar. Kaupþingsmenn hafi ef til vill virst eilítið barnalegir, en hafi samt sem áður hagað sér fagmannlega.

Breska blaðið Guardian fjallar einnig um málið og nefnir sérstaklega menn sem hafa haft mikil umsvif í Bretlandi, líkt og Tchenguiz bræður Simon Halabi og fleiri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×