Viðskipti innlent

Er gengisstöðugleiki sumarsins á enda?

Krónan tók að veikjast nokkuð í síðustu viku eftir stöðugleika í júlímánuði. Gengisvísitalan stóð hæst í 238 stigum og hafði krónan þá veikst um ríflega 2,5% frá upphafi vikunnar. Vístalan endaði vikuna hins vegar í 234 stigum eftir inngrip Seðlabankans á föstudag og hafði þá lækkað um tæplega 1% í vikunni. Greining Íslandsbanka segir frá þessu í dag.

Gengi krónunnar var afar stöðugt nánast allan júlímánuð. Vísitalan sveiflaðist á bilinu 230-234 þar til í byrjun síðustu viku.

Gjaldeyrismarkaðurinn nánast óvirkur í mánuð

Helsta ástæða stöðugleikans í júlí er líklega sú að veltan hefur verið lítil sem engin og má væntanlega rekja það til sumarfría landsmanna. Veltan á millibankamarkaði nam einungis tæpum 150 milljónum að meðaltali á dag og er það með því minnsta sem hefur sést á þeim markaði. Það mætti því segja að markaðurinn hafi verið allt að því óvirkur í mánuðinum og því líklega ekki að furða að hreyfingar í krónunni hafi verið litlar.

Frestun á láni AGS hafði áhrif til veikingar krónunnar

Frestun á afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á öðrum hluta lánsins til Íslands hafði einnig neikvæð áhrif.

Heildarveltan í mánuðinum nam 3,5 milljarði króna, en rúmur milljarður af heildarveltunni eða 35% var tilkominn vegna inngripa Seðlabanka Íslands.

Ögn meira líf hefur því færst í gjaldeyrismarkaðinn og spurning hvort að gengisstöðugleiki sumarsins sé á enda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×