Innlent

Refaveiðar í lögum allt frá 13. öld

Hörð mótmæli berast nú af landsbyggðinni vegna áforma umhverfisráðherra að hætta að styrkja refaveiðar. Æðarbændur benda á að ákvæði um fækkun refa hafi verið í lögum frá 13. öld og Dalamenn vilja að ríkið ráði sérstakar refaskyttur til starfa.

Æðarræktarfélag Íslands mótmælir harðlega þeirri ákvörðun umhverfisráðherra að hætta þátttöku ríkisins í refaveiðum og bendir á að allt frá 13. öld hafa verið inni ákvæði í lögum um fækkun refa. Formaður Æðarræktarfélagsins, Jónas Helgason í Æðey, segir að ekki hafi verið færð rök fyrir því af hverju það sé í lagi að hætta refaveiðum akkúrat núna og telur fjarri lagi að ná megi fram 17 milljóna króna sparnaði. Segir Jónas að sér sé ekki kunnugt um að rætt hafi verið við hagsmunaðila og telur fróðlegt að heyra hverjir voru ráðgjafar ráðherra í þessu máli.

Þá mótmælir byggðaráð Dalabyggðar skipulagsleysi sem það segir hafa einkennt stjórn refaveiða á Íslandi um langt árabil. Engin heildstæð sýn hafi verið á málaflokknum og samræmdar aðgerðir sveitarfélaga og ríkis nær engar. Ákvörðun umhverfisráðuneytisins nú að hætta að greiða verðlaun fyrir veidd dýr sé skýrt dæmi um þessi vinnubrögð.

Dalamenn leggja til að nýtt skipulag verði tekið upp. Ráðnir verði veiðimenn sem heyri beint undir veiðimálastofnun og þeir sinni grisjun refastofnsins á öllu landinu. Veiðar miðist fyrst og fremst við varplönd fugla. Lagt verði af það fyrirkomulag að einstök sveitarfélög ráði því hvort þau borgi verðlaun fyrir refaveiðar eða ekki. Slíkt fyrirkomulag þjóni engum tilgangi og veiðum verður í rauninni sjálfhætt haldi það áfram. Offjölgun á einum stað og útrýming á öðrum geri ekkert gagn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×