Viðskipti innlent

Atvinnuleysi í nóvember 8 prósent

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, á fundi fyrr á árinu. Fréttablaðið/Vilhelm
Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, á fundi fyrr á árinu. Fréttablaðið/Vilhelm

Skráð atvinnuleysi í nóvember var 8 prósent, eða að meðaltali 13.357 manns, samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi jókst að meðaltali um 5,3 prósent frá því í október, eða um 675 manns.

„Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 3,3 prósent, eða 5.445 manns,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Í lok nóvember voru 15.017 án atvinnu, en voru 14.369 í lok október. „Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 12.141, af þeim voru 2.226 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í viðtöl hjá ráðgjöfum stofnunarinnar og á kynningarfundi,“ segir í skýrslu Vinnumálastofnunar. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 13 prósent, en minnst á Vestfjörðum, 2,8 prósent.

„Atvinnuleysi eykst um 6,3 prósent meðal karla en um 3,8 prósent meðal kvenna.“ Í Hagsjá, efnahagsvefriti Landsbankans, kemur fram að sé mánaðarlegt atvinnuleysi eins og Vinnumálastofnun skráir það leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum komi í ljós að það lækkar lítillega frá síðasta mánuði. Sama gerðist í október.

„Venjulega hefur skráð atvinnuleysi verið í hámarki í upphafi hvers árs sem skýrir hluta ástæðunnar að baki lækkun á árstíðaleiðréttri tölu,“ segir þar. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×