Erlent

Obama hrósar Afgönum fyrir lýðræðislegar forsetakosningar

Obama.
Obama.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, segir að forsetakosningarnar í Afganistan séu mikilvægt skref fram á við fyrir land sem hefur búið við ofbeldi og óstöðugleika árum saman.

Obama lofaði Afgana í hástert fyrir að hafa mætt á kjörstað í gær þrátt fyrir hótanir Talibana. Hann sagði að Bandaríkjamenn hafi vitað að Talibanar myndu reyna að eyðileggja kosninguna, en þeim hafi ekki tekist ætlunarverk sitt.

Hann sagði að Bandaríkin biðu spennt eftir niðurstöðum kosninganna - rétt eins og heimurinn allur. „Þetta var mikilvægt skref svo Afganar geti fengið að ráða sinni framtíð sjálfir, þrátt fyrir að ofbeldisfullir öfgamenn reyni að standa í vegi fyrir þeim," sagði Obama. „Við hlökkum til að endurnýja stjórnmálasamband okkar við Afganistan þegar þeir fá nýja ríkisstjórn."

Kosningarnar í Afganistan fóru mun friðsamlegar fram en áætlað var en engu að síður létust ellefu manns sem unnu á kjörstöðum í árásum uppreisnarmanna.

Sprengjur og eldflaugar víðsvegar um landið tóku líf 26 annarra aðila.

„Afganskir borgarar stjórnuðu þessum kosningum. Þetta er í raun í fyrsta sinn sem það gerist í þrjátíu ár."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×