Innlent

Hrikalegar tölur úr rekstri sveitarfélaga

Sveitarfélög höfðu miklar tekjur af sölu byggingaréttar árið 2007. Árið 2008 kom bakslag og sveitarfélög þurftu að endurgreiða háar fjárhæðir vegna lóðaskila.fréttablaðið/pjetur
Sveitarfélög höfðu miklar tekjur af sölu byggingaréttar árið 2007. Árið 2008 kom bakslag og sveitarfélög þurftu að endurgreiða háar fjárhæðir vegna lóðaskila.fréttablaðið/pjetur

Rekstrarniður-staða sveitarfélaganna fyrir árið 2008 sýnir að viðsnúningurinn frá árinu á undan er neikvæður um 68 milljarða króna. Afkoman er lökust hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og á svokölluðum vaxtarsvæðum.

Bráðabirgðaniðurstöður úr ársreikningum sveitarfélaga sem hafa rúm 88 prósent íbúanna hafa borist Sambandi íslenskra sveitar-félaga (SÍS).

Ljóst liggur fyrir að verðbólgan og efnahagshrunið hafa haft mikil áhrif á rekstur og efnahag sveitarfélaganna. Tekjur sveitarfélaganna dragast saman á sama tíma og útgjöld fara vaxandi. Lán hækka vegna verðbólgu og hruns krónunnar. Það þýðir að fjármagnsliðir munu taka meira til sín á komandi árum en hingað til. Það mun að óbreyttu þýða að sveitarfélögin verða að leita allra leiða sem færar eru til að láta enda ná saman í rekstri sínum og að forgangsröðun verði önnur.

Halldór Halldórsson, formaður SÍS og bæjarstjóri á Ísafirði, hefur fyrir hönd sambandsins reynt að vinna svokallaðri fimm prósenta leið brautargengi. Hann segir að mörg sveitarfélög hafi gripið til víðtækra sparnaðaraðgerða nú þegar. Eins segir hann að staða nokkurra sveitarfélaga sé svo alvarleg að líklega þurfi að beita sérstökum aðgerðum til að hjálpa þeim yfir erfiðasta hjallann.

Rekstrarniðurstaða ársins 2008 er neikvæð um 19,6 milljarða en árið 2007 var hún jákvæð um 48,6 milljarða. Viðsnúningurinn er 68 milljarðar. Afkoman er lökust hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og á vaxtarsvæðum.

Áhrif hruns krónunnar og mikillar verðbólgu koma glöggt fram í efnahagsreikningi í hækkun áhvílandi lána. Skammtímaskuldir hækkuðu úr 40,1 milljarði á árinu 2007 upp í 46,4 milljarða á árinu 2008. Á sama tíma hækkuðu langtímaskuldir úr 58 milljörðum á árinu 2007 upp í 106 milljarða á árinu 2008. Það er hækkun um 83 prósent.

Hrun krónunnar og mikil verðbólga hafa mikil áhrif á fjármagnsliði. Á árinu 2007 var útkoma úr fjármagnsliðum jákvæð um fjóra milljarða en á árinu 2008 var hún neikvæð um tæpa sautján milljarða. Verulegur hluti þessa er áhrif af breytingum á lánum sem eru í erlendri mynt. Meðan gengisvísitala íslensku krónunnar er svo há sem raun ber vitni gengur þessi breyting ekki til baka, eins og segir í fréttabréfi SÍS.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×