Erlent

Írakar ráða ekki við kröfur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins

Óli Tynes skrifar
Írakar þurfa að endurreisa olíuiðnaðinn.
Írakar þurfa að endurreisa olíuiðnaðinn.

Forsætisráðherra Íraks sagði í dag að landið gæti ekki orðið við kröfum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um að lækka laun opinberra starfsmanna.

Sjóðurinn vill fá þessa launalækkun gegn því að lána Írökum fimm og hálfan milljarð dollara.

Hið opinbera er gríðarlega umfangsmikið í Írak og sjötíu og fjögur prósent af fjárlögunum fara í greiðslu launa þar.

Nuri al-Makili sagði að reynt yrði að koma til móts við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn með því að auka tekjur ríkissjóðs með aukinni olíuframleiðslu.

Reyna að fá erlenda fjárfesta

Útflutningur á olíu skilar meira en níutíu og fimm prósentum af tekjum landsins og olíuframleiðslan er meira og minna í lamasessi eftir sex ára stríð og skærur. Íraka sárvantar fé til þess að byggja hana upp á nýjan leik.

Forsetinn sagði að verið væri að reyna að laða erlend olíufélög til landsins til að hjálpa til við uppbygginguna. Írakar vona að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sætti sig við þessa leið, í stað þess að lækka laun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×