Viðskipti innlent

Íslandsbanki í eigu útlendinga innan tíðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íslandsbanki verður senn í eigu útlendinga. Mynd/ Anton.
Íslandsbanki verður senn í eigu útlendinga. Mynd/ Anton.
Glitnir banki hf. mun eignast allt hlutafé í Íslandsbanka með sérstöku samkomulagi sem hefur náðst um fjármagnsskipan bankans. Þetta er niðurstaða samningaviðræðna stjórnvalda við fulltrúa kröfuhafa Glitnis.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að með þessu gæti Íslandsbanki komist í eigu erlendra aðila innan tíðar. Samkvæmt samkomulagi ríkisins og kröfuhafa mun ríkið leggja bankanum fyrst til nýtt eigið fé sem kröfuhöfum gefst kostur á að eignast fyrir 30. september næstkomandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ríkið mun jafnframt leggja bankanum til fé í formi víjkandi láns sem styrkir eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að með erlendu eignarhaldi muni Íslandsbanki aftur verða beintengdur alþjóðlegu fjármálakerfi en meðal kröfuhafa Glitnis séu margar af öflugustu fjármálastofnunum í Bandaríkjunum og Evrópu. Aðkoma erlendra kröfuhafa muni stuðla að bættum aðgangi bankans að alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem muni gera bankanum betur kleift að þjóna viðskiptavinum sínum enn betur í framtíðinni. Þetta sé einnig mikilvægur þáttur fyrir framtíðaruppbyggingu íslensks atvinnulífs og fjármálakerfis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×