Viðskipti innlent

Verð á sjávarafurðum það sama og árið 2006

Verð á íslenskum sjávarafurðum, mælt í erlendri mynt, lækkaði um rúmlega eitt prósent í síðasta mánuði og er nú orðið það sama og það var í ársbyrjun árið 2006.

Það hefur þá lækkað um 6,4 prósent frá áramótum, samkvæmt útreikningi IFS greiningar, sem Skip. is byggir á og grundvallast Hagstofutölum frá því í gærmorgun.

Lítilsháttar hækkun í apríl og maí, gaf því falskar vonir. Afurðaverðið núna er álíka og það var í erlendri mynt fyrir þremur og hálfu ári, en síðan varð töluverð hækkun, sem reyndist aðeins verðbóla.

IFS greining segir að ýmis jákvæð teikn hafi komið fram í nýlegum hagvísum. Svo virðist þó sem enn sé nokkur samdráttur í Evrópu, sem er aðal markaðssvæðið fyrir íslenskar sjávarafurðir, en staðan virðist betri vestanhafs. Horfur fyrir næsta ár séu þó jákvæðar og ætti spurn eftir sjávarafurðum þá að aukast eitthvað.

Tekjur sjávarútvegsfyrirtækja hafa hinsvegar aukist verulega á tímabilinu í krónum talið vegna lækkunar á gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, en á móti kemur að erlenda skuldir þessara fyrirtækja hafa hækkað verulega af sömu sökum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×