Innlent

Landsmenn hamstra flensulyf

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Landsmenn eru farnir að birgja sig upp af inflúensulyfjum. Salan á lyfjunum margfaldaðist í apríl þegar hátt í tvö þúsund skammtar seldust. Þeir skammtar sem hafa verið seldir eru þó ekki hluti af öryggisbirgðum Íslendinga.

Lyfin Tamiflu og Relenza eru notuð gegn inflúensu A og B og virka á svínaflensu. Lyfin fást ekki nema með ávísun frá lækni. Á fyrstu þremur mánuðum ársins seldi innflytjandi lyfsins Relenza hundrað skammta af lyfinu en fjögur hundruð í apríl. Frá áramótum og þar til fréttir tóku að berast af svínflensu fyrir tæpum tveimur vikum höfðu fjörtíu og fimm skammtar af Tamiflu selst hér á landi. Á síðustu tveimur vikum aprílmánaðar seldu innflytjendur lyfsins hins vegar 1300 skammta.

Bessi H. Jóhannesson, framkvæmdastjóri lyfjasviðs Icepharma sem flytur inn Tamiflu, segir erfitt að segja til um hvað valdi því að svo mikið hafi selst af lyfinu undanfarið. Gera megi ráð fyrir að fólk sem sé að fara til útlanda sé að birgja sig upp af lyfinu eða að fólk vilji eiga lyfið heima hjá sér til að vera viðbúið. Tamiflu seldist upp í síðustu viku. Icepharma fékk hins vegar fimmtán hundruð skammta til landsins í dag.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld eiga hundrað þúsund lyfjaskammta gegn inflúensu A. Þessir skammtar eru svokallaðar öryggisbirgðir og eru þeir skammtar sem seldir hafa verið í apótekum ekki teknir af þeim. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir mælir ekki með því að fólk sé að birgja sig upp af flensulyfjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×