Erlent

Pakistanskar hersveitir réðust í dag gegn talibönum

Pakistanskar hersveitir réðust í dag gegn talibönum í Swat héraði og beittu bæði stórskotaliði og orrustuþyrlum. Tilraunir stjórnvalda til að friðþægja talibana með því að láta þeim eftir land, virðast hafa mistekist.

Eftir talsverðar skærur reyndu stjórnvöld í Pakistan að friða talibana með því að eftirláta þeim Swat hérað og leyfa þeim að setja þar upp íslamska sharía dómstóla. Blekið var varla þornað á þeim pappír þegar talibanar réðust með vopnavaldi inn í næsta hérað.

Það er aðeins í um 100 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Islamabad.

Á vesturlöndum höfðu menn miklar áhyggjur af þessari þróun ekki síst þar sem Pakistan er kjarnorkuveldi.

Engum hugnast að talibanar taki völd í landinu og hafi þá yfir kjarnorkuvopnum að ráða.

Bandaríkjamenn hafa leynt og ljóst hvatt Pakistana til að spyrna við fæti og eiga sjálfsagt einhvern þátt í þeirri sókn sem nú er hafin.

Asif Ali Zardari, forseti Pakistans, er nú í Washington þar sem hann mun ræða við hinn bandaríska starfsbróður sinn, Barack Obama.

Á stuttum fundi með fréttamönnum fullyrti hann að kjarnorkuvopn landsins væru í öruggri geymslu og engin hætta á að talibanar komi höndum yfir þau.

Búist er við að á fundinum með Obama muni hann biðja um bæði auka hernaðar- og efnahagsaðstoð til þess að kljást við öfgahópa í landi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×