Innlent

Umræðan um yfirvofandi greiðsluþrot á algjörum villigötum

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra fjallaði um skuldastöðu ríkisins á ríkisstjórnarfundi í morgun og vísaði þar á bug öllum hugmyndum um yfirvofandi greiðsluþrot. Gunnar Tómasson hagfræðingur er á meðal þeirra sem á síðustu dögum hefur haldið því fram að í það stefni.

„Þessi umræða er að mínu mati á algjörum villigötum," sagði Gylfi og benti á að að fjölmörg ríki eru með erlendar skuldir um eða yfir hundrað prósent af landsframleiðslu. „Til dæmis eru skuldir Bandaríkjanna nokkurn veginn þetta og í Vestur Evrópu eru fjölmörg ríki með erlendar skuldir sem nema meiru en einni landsframleiðslu og jafnvel upp í tífalda landsframleiðslu. Það vill svo til að talan sem nefnd hefur verið sem algjörlega óviðráðanleg, 250 prósent af landsframleiðslu er nokkurn vegin sama staða og Danir eru í."

Ekki rétti mælikvarðinn

Gylfi sagði að menn verði að hafa það í huga að heildar erlendar skuldir séu nánast bara mælikvarði á það hve alþjóðlegt viðskiptalíf viðkomandi lands er. „Ef það er mjög alþjóðlegt með stórt fjármálakerfi eru erlendar skuldir miklar en erlendar eignir eru þá væntanlega miklar á móti. Þannig að heildar erlendar skuldir eru einfaldlega ekki rétti mælikvarðinn til þess að meta hversu illa eða vel lönd eru stödd," sagði ráðherrann.

Hann bætti því við að rétt væri að hafa í huga að heildar erlendar skuldir Íslendinga hafa ekki aukist, heldur hafa þær þvert á móti minnkað. „Einfaldlega vegna þess að þær voru mikið til inni í bönkunum og eru núna í þrotabúum bankanna og verða aldrei greiddar að fullu. Það er auðvitað gríðarlegt tjón fyrir þá sem lánuðu bönkunum en skuldirnar sem eftir standa eru mun lægri en þær sem komu bönkunum í þrot."

Ríkið ber ekki ábyrgð á skuldum einkaaðila

Að mati Gylfa er miklu eðlilegra að horfa á hreina eignastöðu, eða skuldir mínus eignir. „Þá tölu verður svo að skoða í samhengi við hversu mikinn gjaldeyri viðkomandi land er að búa til. Þessi staða á Íslandi er vissulega neikvæð en hún hefur samt líklega eitthvað batnað við hrunið. Aðilar sem skulduðu mikið eru farnir á hausinn en aðilar sem eiga miklar eignir í útlöndum eins og lífeyrissjóðirnir standa eftir með megnið af sínum eignum."

Við þetta bætti Gylfi að gera yrði greinarmun á skuldum ríkis og einkaaðila. „Það er auðvitað þannig að það sem einkaaðilar geta ekki greitt verður afskrifað með einhverjum hætti. Það er ekki eitthvað sem sjálfkrafa færist á þjóðina einfaldlega vegna þess að ríkið ber ekki ábyrgð á skuldum einkaaðila."

Græðum á því að hafa ekki getað bjargað bönkunum

„Ef við horfum á nettó-eignastöðu ríkis og sveitarfélaga á Íslandi er hún vissulega neikvæð en í alþjóðlegum samanburði ekkert skelfileg," bætti ráðherrann við. „Skuldir umfram eignir þessara aðila eru vel innan við eina landsframleiðslu en staðan hefur versnað meira hjá öðrum þjóðum vegna þess að önnur lönd hafa verið að eyða gríðarlegu fé til þess að bjarga eigin bankakerfi. Við þurftum ekki að gera það vegna þess að við gátum ekki bjargað okkar bankakerfi."

Gylfi benti einnig á að í alþjóðlegum samanburði á íslenska ríkið verulegan varasjóð sem er ekki talinn með í eignum ríkisins. „Hann er einfaldlega fólginn í fjármunum lífeyrissjóðanna sem eru óskattlagðir en verða skattlagðir þegar þeir eru greiddir út. Staða íslenska ríkisins er mun betri heldur en annara ríkja sem eru með annað fyrirkomulag á sínum lífeyrismálum og í alþjóðlegum samanburði verður að taka tillit til þess," sagði ráðherrann og bætti því við að Íslendingar séu með hagstæðari fólksfjöldapýramída en víða annars staðar sem veldur því að þjóðin lendir ekki í verulegum vandræðum vegna fjölgunar landsmanna í nánustu framtíð.

Óhjákvæmilegt að krónan styrkist

„Loks má hafa í huga að þegar reiknaðar eru erlendar skuldir í hlutfalli við landsframleiðslu og þær bornar saman við landsframleiðslu sem er reiknuð í krónum verða hlutföllinn óhjákvæmilega mjög há á meðan gengi krónunnar er eins lágt og raun ver vitni," sagði Gylfi einnig og bætti því að nánast óhjákvæmilegt væri að krónan muni styrkjast á næstu árum. „Þá lækka þessi hlutföll sjálfkrafa."

„Þannig að þegar heildina er litið er óhætt að fullyrða að allar yfirlýsingar um yfirvofandi greiðsluþrot eru ástæðulausar," sagði viðskiptaráðherra að lokum. Nú þurfi menn að einbeita sér að því að ná duglegum afgangi á viðskiptajöfnuðinn til þess að geta staðið í skilum. „Og svo þarf auðvitað að ná tökum á ríkisfjármálunum þannig að ríkið verði með afgang og geti farið að lækka sínar skuldir."






Tengdar fréttir

Hagfræðingur: Greiðsluþrot verður vart umflúið

Greiðsluþrot þjóðarbúsins verður vart umflúið og aðgerðaráætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þarfnast róttækrar endurskoðunar. Þetta kemur fram í bréfi sem Gunnar Tómasson, hagfræðingur, sendi alþingismönnum í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×