Viðskipti innlent

Segir tilboð Lur Berri til hluthafa Alfesca vera sanngjarnt

Fyrirtækjaráðgjöf Saga Capital telur að tilboðsgengi Lur Berri Iceland ehf., til hluthafa Alfesca sé sanngjarnt. Tilboðið er 4,5 kr. á hlut og segir Saga Capital að tilboðið sé sanngjarnt sér í lagi ef litið er á kennitölur sambærilegra fyrirtækja á markaði og núvirt sjóðstreymi.

Einnig er tekið er mið af erfiðum aðstæðum á íslenskum fjármálamarkaði og horft er til yfirtökutilboða á Íslandi undanfarin ár, að því er segir í tilkynningu um málið.

Í tengslum við yfirtökutilboð Lur Berri Iceland ehf. til hluthafa Alfesca hf. hefur Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. unnið greinargerð um álit sitt á fram komnu yfirtökutilboði og skilmálum þess, fyrir hönd stjórnar Alfesca og er það dagsett 21. júlí 2009.

Tilboðsverðið svarar til hæsta verðs sem samstarfsaðilarnir hafa greitt fyrir hluti í Alfesca síðustu sex mánuði. Það er 32,4% hærra en síðasta viðskiptaverð þann 28. maí 2009 sem var sá dagur sem tilkynnt var um fyrirhugað samstarf og samstarfsaðilanna um stjórn og rekstur Alfesca hf. Ennfremur er tilboðsverðið 25,3% hærra en meðaldagslokaverð síðustu sex mánuði þar á undan.

Fram kemur í yfirtökutilboðinu að stefnt er að afskráningu hlutabréfa Alfesca hf. á NASDAQ OMX Iceland, en það kann að hafa áhrif á verð hlutabréfanna, verðmyndun þeirra, með hvaða hætti verður unnt að eiga viðskipti með þau í framtíðinni sem og þrengingu á hópi fjárfesta sem heimild hafa til fjárfestingar í hlutabréfunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×