Innlent

Stjórnvöld hafa klúðrað kynningu á aðgerðum fyrir heimilin

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Mynd/GVA
Stjórnvöld hafa klúðrað kynningu á þeim úrræðum sem Alþingi hefur samþykkt vegna skulda heimilanna og verða tafarlaust að grípa til aðgerða til stuðnings þeim úrræðum sem þegar eru fyrir hendi, að mati forseta Alþýðusambands Íslands. Hann segir misskilning að fólk með gjalddaga húsnæðislána í vanskilum eigi ekki rétt á greiðsluaðlögun.

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir að draga verði á eina hendi afskriftareikninga bankanna vegna heimilanna. Ekki kæmi á óvart að þarna yrði um tvö til fjögur hundruð milljarða að ræða. Síðan verði ríkisvaldið að setja mannskap inn á Ráðgjafastöð heimilanna og í héraðsdómstólana til að vinna úr málum heimilanna samkvæmt þeim úrræðum sem Alþingi hefur þegar samþykkt.

„Það þarf að minnsta kosti að ráða 50 ráðgjafa. Nú er það ekki lengur þannig að vá sé fyrir dyrum. Nú erum við stödd í miðri á og það er komið mikið hættuástand. Það er fjöldi heimila að fara í gjaldþrot út af ástandinu," segir Gylfi.

Gylfi segir ósanngjarnar kröfur settar fram um að fólk setji lán í skil áður en það fær aðstoð. En samkvæmt lögum þurfi fólk ekki að vera með allt í skilum til að njóta úrræða um greiðsluaðlögun og fleira.

„Okkar barátta hefur gengið út á að tryggja réttarstöðu okkar félagsmanna og að farin verði leið greiðsluaðlögunar en ekki gjaldþrota. Við höfnum því að fólk sé sett í gjaldþrot," segir forsetinn.

„Mér finnst að stjórnvöld hafi alls ekki axlað ábyrgð á því að upplýsa borgarana um þau réttindi sem búið er að hafa mikið fyrir að koma í gegnum Alþingi í vetur," segir Gylfi.

Þá segir Gylfi að stjórnvöld hafi engan tíma til að vinda ofan af núverandi ástandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×