Viðskipti innlent

Spáir lítilsháttar lækkun á verðbólgunni í júlí

Gangi spá hagfræðideildar Landsbankans eftir verður 12 mánaða verðbólga 11,6% í júlí og lækkar úr 12,2% í mánuðinum á undan. 12 mánaða verðbólga hefur ekki verið lægri frá því í mars 2008.

Fjallað er um spána í Hagsjá, vefriti deildarinnar. Þar segir að í mælingunni nú má búast við nokkurri lækkun á fatnaði og skóm vegna þess að sumarútsölur eru nú hafnar í mörgum verslunum. Spáin gerir einnig ráð fyrir hóflegum áhrifum til lækkunar vegna fasteignaliðarins líkt og í síðasta mánuði.

Á móti vegur þó nokkur verðhækkun á eldsneyti sem rekja má til skattahækkana á bensíni. Þá má búast við hækkun á ýmsum öðrum innflutningsvörum s.s. matvöru og bifreiðum.

Útsölur á fatnaði, skóm, heimilistækjum og húsgögnum draga mjög úr hækkun vísitölunnar (VNV) í júlímánuði. Útsölur í helstu verslunarmiðstöðvum hófust í kringum 8. júlí og skila sér því af töluverðum þunga inn í mælinguna nú. Von er til að föt og skór lækki um 10% frá fyrri mánuði en það jafngildir um 0,6% áhrifum til lækkunar VNV.

Búast má við að hækkun á eldsneyti valdi um 0,25% hækkun á VNV í mánuðinum en að stærstum hluta er um er að ræða hækkun vegna skattabreytinga. Þessar verðbreytingar á bensíni komu ekki til framkvæmda strax eftir lagasetninguna vegna ríflegrar birgðastöðu olíufélaganna.

„Krónan hefur lítið breyst síðastliðinn mánuðinn en gengisvísitalan hefur sveiflast á bilinu 230-235 undanfarnar vikur. Síðastliðna fjóra mánuði hefur krónan þó veikst um 20% en aðeins lítill hluti þeirrar veikingar hefur enn sem komið er skilað sér út í innlent verðlag og því teljum við að í mælingunni nú muni verð á ýmsum innfluttum vörum, s.s. matvöru og bifreiðum, halda áfram að hækka. Ljóst er að minnkandi eftirspurn ætti að öllu jöfnu að draga úr svigrúmi til hækkana og eigum við því aðeins von á hóflegum hækkunum á þessum liðum," segir í Hagsjánni.

Ennfremur er tekið fram að áhrif fasteignaverðs á VNV hafa verið mjög sveiflukennd að undanförnu. Það sem af er ári hefur mánaðarbreytingin á fasteignaliðnum sveiflast á milli þess að lækka um 4,9% í mars í að hækka um 1,4% í maí, aðeins tveimur mánuðum síðar.

Fasteignaverð er því um þessar mundir enn stærsti óvissuþátturinn í verðlagsþróuninni til skemmri tíma litið. Mikil óvissa er um áhrif fasteignaverðs þar sem sveiflur milli mánaða geta verið töluverðar en í spá okkar að þessu sinni gerum við ráð fyrir tæplega 1% lækkun reiknaðrar húsaleigu milli mánaða en það hefur rúmlega 0,1% áhrif til lækkunar á VNV.

Þegar til lengri tíma er litið er þó viðbúið að lækkun fasteignaverðs sé ekki gengin yfir og að fasteignaverð muni halda áfram að lækka næsta kastið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×