Erlent

Tveir segjast vera sigurvegarar

Fyrstu niðurstöður úr talningu atkvæða verða ekki birtar fyrr en á þriðjudag.fréttablaðið/AP
Fyrstu niðurstöður úr talningu atkvæða verða ekki birtar fyrr en á þriðjudag.fréttablaðið/AP

Bæði Hamid Karzai, núverandi forseti, og Abdullah Abdullah, fyrrverandi utanríkisráðherra í stjórn Karzais, sögðust í gær sannfærðir um að hafa unnið sigur í forsetakosningunum í Afganistan sem haldnar voru daginn áður.

Fyrstu bráðabirgðaniðurstöður atkvæðatalningar verða þó ekki birtar fyrr en á þriðjudag. Talningu atkvæða í mörgum kjördæmum er þó lokið, en atkvæðin voru send eftir talningu til höfuðborgarinnar Kabúl.

Stuðningsmenn Abdullahs segjast vera að kanna fullyrðingar um kosningasvindl víða í héruðum Pastúna í suðurhluta landsins, þar sem búist er við að Karzai nái góðum árangri, enda er hann sjálfur Pastúni.

Nái hvorki Karzai né Abdullah einföldum meirihluta atkvæða þá þarf að efna til annarrar umferðar kosninganna, þar sem kosið verður á milli þeirra tveggja sem flest atkvæðin fengu, sem að öllum líkindum verða þeir Karzai og Abdullah.

„Ég ráðlegg öllum frambjóðendum að sýna þolinmæði og bíða þangað til niðurstöður talningar fara í gegnum rétta aðila og úrslitin verða tilkynnt,“ sagði Daoud Ali Najafi, yfirmaður aðalkjörstjórnar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×