Innlent

Mikill niðurskurður hjá utanríkisráðuneytinu

Sigríður Mogensen skrifar

Varnamálastofnun Íslands verður lögð niður á þessu ári og framlög til þróunarsamvinnu og friðargæslu dregin verulega saman. Þá á að selja embættisbústaði og loka sjö sendiskrifstofum. Þetta er hluti af niðurskurði í utanríkismálum.

Framundan er mikill niðurskurður í opinberum rekstri og í mörg horn að líta. Utanríkisráðuneytið hefur kynnt í grófum dráttum niðurskurðartillögur sínar. Meðal þess sem á að skera niður á þessu ári eru framlög til Varnarmálastofnunar Íslands og verður stofnunin lögð niður í núverandi mynd. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að sá niðurskurður muni ekki bitna á núverandi varnar- og öryggisskuldbindingum Íslendinga.

Einnig verða framlög til þróunarsamvinnu og friðargæslu dregin verulega saman á meðan Íslendingar ganga í gegnum efnahagsþrengingar. Þá verður sendiskrifstofum fækkað á þessu ári og því næsta og starfsliði í heild fækkað. Áætlað er að sjö sendiskrifstofum verði lokað á árinu. Og ráðuneytið hefur einnig ákveðið að selja embættisbústaði í New York, Washington, London, Ottawa og Tókýó. Andvirði þeirra á að leggja í ríkissjóð. Á næstunni mun fækka nokkuð í hópi sendiherra og ekki er gert ráð fyrir að nýir verði skipaðir í staðinn um sinn.

Samtals er um að ræða 190 milljóna króna viðbótarsparnað á yfirstandandi ári. Á næst ári sker utanríkisráðuneytið niður rekstrarútgjöld um 10% til viðbótar áður ákveðnum sparnaði. Þorri útgjalda utanríkisráðuneytisins eru í erlendri mynt og því er ráðuneytið viðkvæmara fyrir áhrifum gengisbreytinga en annar rekstur ríkisins.

Varnamálastofnun á sér ekki langa sögu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir beitti sér fyrir stofnun hennar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, eftir að herinn hvarf að landi brott. Stofnunin tók til starfa í byrjun júní 2008 og var ætlað að sjá um öll samskipti við Atlantshafsbandalagið og varnamálaráðuneyti annarra ríkja sem Ísland er í samstarfi við.

Deilur voru um það í ríkisstjórninni hvort stofna ætti Varnamálastofnun og hvort hún ætti að heyra undir utanríkisráðherra eða dómsmálaráðherra en Björn Bjarnason hafði efasemdir um að stofnunin þjónaði tilgangi sínum og vildi að starfsemi hennar félli undir landhelgisgæsluna. Áætlaður heildarkostnaður til varnarmála það ár var 1.350 milljónir króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×