Innlent

Borgarstjóralaxinn kominn á bakkann

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Borgarstjóri Reykjavíkur, Hanna Birna Kristjánsdóttir, var ekki lengi að landa fyrsta laxi ársins úr Elliðaánum. Fimm punda hrygna var komin á bakka ánna laust fyrir klukkan hálf átta.

Það var klukkan sjö í morgun sem Hanna Birna var mætt í fullum herklæðum að Elliðaánum. Blíðskaparveður var við árnar og byrjaði að renna fyrir borgarstjóralaxinum - sem er ævinlega sá fyrsti sem veiddur er í ánum á sumrin.

Hefð er fyrir því að borgarstjórinn renni fyrst í Fossinn, þar gerðist ekkert og var þá stefnan tekin á svokallaða Breiðu, að því er segir á síðu Stangveiðifélags Reykjavíkur. Þar skipti ekki togum og eftir snarpa viðureign landaði borgarstjórinn fallegri fimm punda hrygnu - aðeins hálftíma eftir að þessi borgarstjórinn hóf veiðitilraunir.

Með í för var þaulreyndur stangveiðimaður sem rotaði fiskinn fyrir borgarstjóra, en stjórnandi borgarinnar hafði beðist undan því að drepa fiskinn.

Þetta var Maríulax Hönnu Birnu og því beit hún uggann af fiskinum. Það gekk trauðlega að ná ugganum af - en hún gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana - og át síðan uggann með bestu lyst eins og mönnum ku skylt að gera með sinn fyrsta lax úr á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×