Innlent

Ferðamenn neita að nota seðlabankagengið

Ferðaþjónustan horfir fram á gríðarlegt tap vegna gjaldeyrishafta. Erlendir kaupendur sem hafa skuldbundið sig til að greiða í íslenskum krónum fá það ekki og þurfa að greiða í erlendri mynt. Þeir neita að nota gengi Seðlabankans á krónunni og miða við erlent gengi sem er allt að fjörtíu prósentum lægra.

Fyrirtækið Iceland Excursions rekur ferðaþjónustu hér á landi. Viðskiptavinirnir eru að mestum hluta erlendar ferðaskrifstofur. Fyrirtækið gerir samninga fram í tímann við stóran hluta af viðskiptavinum sínum og er hluti þeirra í íslenskum krónum.

Þegar gjaldeyrishöftin voru hert fyrir mánuði og útflutningsviðskipti í krónum bönnuð með lögunum sendu Samtök ferðaþjónustunnar félagsmönnum sínum bréf. Þar var áréttað að samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu kæmu lögin ferðaþjónustu sem innt væri af hendi hér á landi ekkert við. Þrátt fyrir þetta hafa íslensk ferðaþjónustufyrirtæki lent í vanda vegna gjaldeyrishaftanna.

Þórir Garðarsson, sölu- og markaðsstjóri Iceland Excursions, segir að fyrirtækið hafi nýlega átt að fá reikning greiddan frá erlendri ferðaskrifstofu. Reikningurinn hafi verið í íslenskum krónum samkvæmt samningi sem gerður var áður. Seðlabanki Íslands neiti þeim að greiða reikninginn í íslenskum krónum og vilji að þeir greiði í erlendri mynt. Iceland Excursion bað því ferðaskrifstofuna að greiða í evrum og sendi þeim upplýsingar um á hvað íslenska krónan væri skráð hjá Seðlabankanum. Þeir svörðu um hæl og sögðu að ekkert mál að greiða í evrum en þá yrði að miða við gengi krónunnar í þeirra viðskiptabanka. Munurinn á gengi krónunnar og viðskiptabankans er um fjörtíu prósent og segir Þórir það mjög ósanngjarnt að fyrirtækið þurfi að taka á sig þá lækkun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×