Erlent

NASA leggur niður 900 störf með geimskutluáætluninni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Geimskutlu skotið á loft. Ferðum þeirra fer nú óðum fækkandi.
Geimskutlu skotið á loft. Ferðum þeirra fer nú óðum fækkandi.

Bandaríska geimferðastofnunin NASA gerir ráð fyrir að leggja niður 900 framleiðslustörf þegar geimskutlunum verður lagt á næsta ári.

Geimskutluáætlun stofnunarinnar lýkur formlega árið 2010 en þá verður síðustu geimskutlunum sem enn eru í notkun lagt og annars konar geimför munu leysa þær af hólmi. Aðeins þrjár geimskutlur eru enn í notkun og eiga þær eftir að fara samtals átta ferðir út í geiminn áður en yfir lýkur.

Er þar einkum um að ræða ferðir með mannskap og búnað til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar en auk þess er ein ferð áætluð til að skipta um nokkra hluta Hubble-sjónaukans sem komnir eru til ára sinna. Förin sem leysa skutlurnar af hólmi eru eins konar hylki sem minna um margt á þau geimför sem voru einkennandi fyrir Apollo-áætlunina svokölluðu en Neil Armstrong og félagar lentu meðal annars slíku fari á tunglinu sumarið 1969.

Nýja geimferðaáætlunin gengur undir heitinu Orion og á að vera komin í fulla keyrslu árið 2015. Alls staðar er þó niðurskurðarhnífurinn á lofti og nú hefur sú ákvörðun verið tekin að nýju Orion-geimförin rúmi ekki sex geimfara heldur aðeins fjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×