Erlent

Skrautvagnar á byltingarhátíð

Skrautsýning í Peking.  Íburðurinn var gríðarlegur og þótti minna á Ólympíuleikana í fyrra. Nordicphotos/AFP
Skrautsýning í Peking. Íburðurinn var gríðarlegur og þótti minna á Ólympíuleikana í fyrra. Nordicphotos/AFP

Kínverskir hermenn gengu í skrautfylkingum yfir Torg hins himneska friðar í Peking milli þess sem skriðdrekum og öðrum vígvélum var ekið um torgið. Kínverskir ráðamenn fylgdust grannt með hersýningunni, sem er sú stærsta sem Kínverjar hafa efnt til.

Tilefnið er sextíu ára byltingarafmæli kommúnistastjórnar landsins, sem náði völdum 1. október árið 1949 eftir tuttugu ára harðvítugt borgarastríð. Hver skrautvagninn á fætur öðrum birtist einnig á torginu með glæsiatriðum úr sögu byltingarinnar og kommúnistastjórnarinnar allt til Ólympíuleikanna á síðasta ári.

Íburðurinn minnti verulega á Ólympíuleikana í fyrra, fyrir utan hernaðaráhersluna.

Hu Jintao forseti klæddist hins vegar Maó-jakka í tilefni dagsins og fylgdist með sýningunni, sem í aðra röndina var greinilega ætlað að sýna fram á hvers Kínverjar eru megnugir í dag.

Miklar breytingar hafa orðið í Kína þessa sex áratugi, sem liðnir eru frá því að Mao Zedong lýsti yfir stofnun Alþýðulýðveldisins. Þá var landið eitt hið fátækasta í heimi og mátti sín lítils á alþjóðavettvangi. Nú er Kína þriðja stærsta hagkerfi heims og áhrif þess í heiminum eru sívaxandi.

Lögregluþjónar voru á hverju strái og höfðu greinilega áhyggjur af því að eitthvað færi úrskeiðis, annaðhvort að fagnaðarlætin færu úr böndum eða einhverjir tækju upp á því að mótmæla, því undir niðri kraumar óánægja í samfélaginu.

Sumir Kínverjar kvörtuðu undan því við erlenda fréttamenn að öryggisráðstafanirnar væru svo þunglamalegar að þær hefðu bitnað á þátttöku almennings í hátíðarhöldunum. Þær sýndu einnig hve stjórnin bæri lítið traust til almennings.

„Áður fyrr gátum við tekið þátt í skrúðgöngunum eða að minnsta kostið staðið til hliðar og fylgst með,“ sagði Winston Liu, maður sem sást á gangi um hliðargötur skammt frá Torgi hins himneska friðar. „Núna er þetta allt saman undir ströngu eftirliti. Sjálfsagt er það af öryggisástæðum.“

Ráðamenn hvöttu hins vegar almenning til þess að fylgjast með herlegheitunum í beinni útsendingu í sjónvarpi.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×