Innlent

Sjálfstæðismenn farnir að spyrja alvöru spurninga

Sigmundur Ernir.
Sigmundur Ernir. Mynd/Stefán Karlsson
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag ánægjulegt að sjálfstæðismenn væru farnir að spyrja alvöru spurninga varðandi ráðningar hjá hinu opinbera. Í umræðum um ráðningar í ráðuneytin án auglýsinga sagði Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, flokk sinn og aðra flokka sem sátu í ríkisstjórn á árum áður ekki hafa verið til fyrirmyndar í þessum efnum.

Það var Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem vakti athygli á málinu og benti á að frá áramótum hefðu 42 starfsmenn verið ráðnir til starfa í ráðuneytin án auglýsingar. Hann sagði pólitískar vinaráðningar veikja stjórnsýsluna. Því næst beindi hann orðum sínum að Sigmundi Erni.

„Það er afskaplega ánægjulegt að sjálfstæðismenn séu farnir að spyrja alvöru spurninga þegar kemur að ráðningarmálum hins opinbera," sagði Sigmundur Ernir og bætti við að sín afstaða væri afskaplega skýr. Hér þurfi að ríkja gegnsæi þar sem hæfasta fólkið sé ráðið hverju sinni. Sigmundur sagði að á þessu gætu þó verið undantekningar, til að mynda þegar komi að ráðningum ráðuneytisstjóra og þeir eigi hugsanlega að vera pólitísk ráðnir.

Eygló sagði þá flokka sem nú sitja í ríkisstjórn hafi áður talað fyrir mikilvægi þess að störf hjá hinu opinbera væru auglýst. Hún benti á að í nýlegu svari forsætisráðherra komi fram að einum ráðherra, Ögmundi Jónassyni, hafi tekist að komast hjá því að ráða starfsmenn án auglýsingar. Hún vildi vita hvernig Ögmundi hefði tekist það og bað um kennslustund.

Ögmundur sagði að um ráðningar hjá hinu opinbera gildi skýrar reglur sem beri að virða. Í ráðherratíð sinni hafi hann verið mjög meðvitaður um þessa hluti. Ekki hafi verið miklar mannabreytingar í heilbrigðisráðuneytinu á meðan hann var ráðherra. Auk þess væri vel haldið utan um starfsmannahald í ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×