Viðskipti innlent

Krafa um lengingu á fresti vegna nauðungarsölu íbúða

Þann 1. nóvember n.k. lýkur þeim fresti sem veittur hefur verið varðandi nauðungarsölu íbúða. Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að fresturinn verði framlengdur um 6 mánuði þannig að reynslan af aðgerðum ríkisstjórnarinnar komi í ljós áður.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samtökin hafa sent frá sér. Í henni segir að það sé mikið ábyrgðarleysi að selja eignir ofan af fjölda fólks áður en reynir á hvort ná má sátt í samfélaginu um viðunandi aðgerðir til varnar heimilunum.

„Til að fylgja eftir þessari kröfu og ræða um boðun nýs greiðsluverkfalls boða Hagsmunasamtök heimilanna til opins fundar á næstunni.

Fyrsta greiðsluverkfalli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna er nú lokið. Samtökin þakka öllum þeim fjölda sem tekið hefur þátt í verkfallinu eða stutt það á annan hátt.Verkfallið hefur fengið góðar undirtektir hjá almenningi en valdið verulegum titringi í bankakerfinu og hjá ríkisvaldinu.

Stjórnvöld hafa því miður ekki ljáð máls á að verða við kröfum samtakanna né efna til viðræðna um þær. Þess í stað hafa þau gert ráðstafanir til að minnka greiðslubyrði af lánum um tíma eftir nýrri vísitölu. Mismunurinn hleðst upp á höfuðstól lánanna og safnar okurvöxtum og verðbótum sem tryggja á að lántakendur greiði að fullu. Þannig stóreykst greiðslubyrðin þegar til lengdar lætur og framlengir skuldaþrældóm almennings," segir í yfirlýsingunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×