Íslenska karlalandsliðið er komið út til Glasgow þar sem strákarnir undirbúa sig fyrir landsleikinn við Skota í undankeppni HM á miðvikudaginn.
Á heimasíðu KSÍ má sjá myndir frá æfingu liðsins en liðið æfði á Broadwood Stadium sem er heimavöllur 1. deildar liðsins Clyde.
Á myndum má meðal annars sjá Eið Smára Guðjohnsen taka á því en hann er orðinn góður af magakveisunni og getur tekið þátt í undirbúningnum fyrir leikinn sem eru mjög góðar fréttir.
Þar kemur líka fram í fréttinni á heimasíðu KSÍ að ástandið á íslenska hópnum sé mjög gott eftir fyrstu æfingarnar í Skotlandi.
Allar æfingar íslenska liðsins fara fram á Broadwood-vellinum nema æfingin annað kvöld, sem er síðasta æfing fyrir leik og fer fram á sjálfum Hampden Park.