Viðskipti innlent

Skuldatryggingarálag lækkaði við fréttir um ESB viðræður

Skuldatryggingarálag á ríkissjóð lækkaði talsvert í gær í kjölfar frétta um að Alþingi hefði samþykkt aðildarviðræður við ESB. Álagið fór úr 660 punktum í upphafi dags í 624 punkta í dagslok samkvæmt gögnum frá Bloomberg.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í frétt á Reuters, þar sem fjallað var um lækkandi skuldatryggingarálag íslenska ríkisins, var það tekið fram að viðskipti með skuldatryggingar á ríkissjóð hefðu verið líflegri í eftirmiðdaginn en um morguninn.

Hreyfingin á skuldatryggingum ríkissjóðs var einnig úr takti við almennt verð á skuldatryggingum, sem yfirleitt stóð í stað eða hækkaði nokkuð í gær. Þetta bendir til þess að einhverjir á markaði telji ríkissjóð nú heldur áreiðanlegri skuldara í erlendri mynt en áður. Þó verður að hafa í huga að dagsveiflur í verði skuldatrygginganna geta verið talsverðar og tíminn mun leiða í ljós hvort lækkunin í gær er komin til að vera.

Erlendis virðast þeir aðilar sem aðkomu hafa að Íslandi í einhverjum mæli á fjármálamörkuðum flestir hafa tekið tíðindunum með ró. Aflandsgengi krónu gagnvart evru hefur til að mynda ekki breyst í miðlunarkerfi Reuters frá því fyrir atkvæðagreiðsluna.

Telja ýmsir á erlendum mörkuðum að fréttir af endurskipulagningu bankanna og sér í lagi afléttingu gjaldeyrishafta muni skipta meiri sköpum fyrir traust á Íslandi næsta kastið en ESB-umsóknin.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×