Viðskipti innlent

Rannsaka hvort Kaupþing hafi átt of mikið í sjálfum sér

Kaupþing fjármagnaði um helming af bréfum í bankanum með lánveitingum til viðskiptavina og starfsmanna bankans. Sérstakur saksóknari rannsakar nú hvort bankinn hafi með beinni eða óbeinni eignaraðild átt meira í sjálfum sér en lög kveða á um.

Yfirlýst stefna Kaupþings var að starfsmenn ættu um 9% í bankanum. Um 130 starfsmenn fengu tæplega 50 milljarða að láni til að kaupa bréfin Þá fengu viðskiptavinir og eigendur bankans geigvænlegar upphæðir lánaðar, m.a. til að hlutabréfakaupa í bankanum.

Nokkrir af stærstu eigendum bankans áttu um 47% af bankanum um tíma en hlutaféð var að stórum eða öllum hluta fjármagnað af Kaupþingi. Hér er þó ekki tekið tillit til stærsta eigenda Kaupþings, Existu, sem átti um 24,7% hlut.

Félagið sjálft skuldaði bankanum um 140 milljarða íslenskra króna en ekki er ljóst hversu mikið eða hvort eitthvað af því láni fór í að fjármagna hlutabréfakaup í bankanum. Oftar en ekki voru einkahlutafélög skráð fyrir kaupunum og þá var einnig algengt að einu veðin fyrir lánunum væru í bréfunum sjálfum.

Í lögum um fjármálafyrirtæki kemur fram að fjármálafyrirtæki megi ekki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem eru hærri en 10% af hlutaféi fyrirtækisins.

Sérstakur saksóknari rannsakar nú hvort að bankinn hafi átt meira í sjálfum sér en lögin kveða á um. Er þá einnig litið til óbeinnar eignaraðildar en bankinn telst vera óbeinn eigandi sinna eigin bréfa í gegnum veðréttinn. Það mun vera sjálfstætt brot að fara yfir 10% mörkin en ástæða þess að það var gert getur fallið undir markaðsmisnotkun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×