Viðskipti innlent

Skýrslunni augljóslega lekið eftir fall bankans

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, gerir því skóna að Fjármálaeftirlitið eða rannsakendur bankahrunsins hafi brotið gegn bankaleynd, með því að stuðla að því að upplýsingar um lán Kaupþings til stórra viðskiptavina, kæmust í hendur almennings.

Sigurður, sem stýrði Kaupþingi, skrifar grein í Fréttablaðið í dag, í tilefni af því að upplýsingar um lán bankans til eigenda, sérstakra viðskiptavina og fleiri, komust í hendur almennings. Sigurður segir ljóst að að skýrslan um lánin hafi verið sótt í gagnagrunna bankans, eftir fall hans. Það komi sér ekki á óvart. Skýrslan hafi einnig verið aðgengileg Fjármálaeftirlitinu og öllum öðrum sem sjái um að rannsaka aðdraganda og fall íslensku bankanna.

Eftirlitsaðilum hafi borið að fara með skýrsluna sem trúnaðarmál, vegna hagsmuna viðskiptavina bankans. Sigurður telur hins vegar að enginn úr gamla Kaupþingi hafi sent skýrsluna áfram, því aðeins fáir hafi haft hana á rafrænu formi.

Eftir stendur, að mati Sigurðar Einarssonar, að því er virðist, að rannsakendur eða Fjármálaeftirlitið hafi lekið skýrslunni, og þannig brotið gegn bankaleynd. Vitneskja almennings um lán til helstu eigenda og viðskiptavina Kaupþings olli miklu fjaðrafoki og varð meðal annars til þess að sýslumaðurinn í Reykjavík var ræstur út á laugardaginn, til þess að samþykkja lögbann á fréttaflutning.

Grein Sigurðar má lesa hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×