Viðskipti innlent

Raungengi krónu nálgast sögulegt lágmark

Raungengi íslensku krónunnar lækkaði um 0,7% í júní og hefur það nú lækkað fimm mánuði í röð, samtals um 16,2% á því tímabili. Raungengi er mælt sem vísitala og hefur hún aðeins einu sinni verið lægri, í nóvember síðastliðnum, rétt eftir hrun íslensku viðskiptabankanna. Hagsjá Landsbankans greinir frá þessu í dag.

Raungengi mælir gengi krónunnar miðað við hlutfallslegt verðlag hér á landi og erlendis í sömu mynt. Ýmsar ytri aðstæður geta valdið því að raungengi sveiflist töluvert en að til lengri tíma litið leiti það á ný í átt að langtíma jafnvægisgengi.

Þó er ekkert því til fyrirstöðu að raungengi sé töluvert langt frá jafnvægisgengi í þónokkuð langan tíma.

Tvennt getur orðið til þess að raungengi krónunnar hækki á nýjan leik



Annað hvort þarf nafngengi krónunnar að styrkjast eða þá að almennt verðlag þarf að hækka hér á landi umfram viðskiptalönd. Blanda af hvoru tveggja verður að teljast líklegasta atburðarásin. Haldist nafngengi krónunnar óbreytt á næstu misserum má því reikna með að hækkun verðlags hér á landi umfram það sem gerist erlendis verði til þess að raungengi þokist í átt að langtímajafnvægi.

Þó ber að hafa í huga að minnkandi eftirspurn í hagkerfinu dregur úr líkunum á því að gengisveiking krónunnar að undanförnu skili sér að fullu í verðhækkunum á innfluttum vörum og þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×