Innlent

Sigurður Kári aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Sigurður Kári er að vonum ánægður með nýja starfið sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar.
Sigurður Kári er að vonum ánægður með nýja starfið sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Mynd/Heiða

„Mér finnst þetta heiður og mikið traust sem hann sýnir mér að velja mig til þess að starfa svona náið með sér," segir Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Vísi. Hann hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins.

„Þetta krafðist smá umhugsunar og ég þurfti auðvitað eftir úrslit kosninganna að velta því fyrir mér hvort ég ætlaði að starfa áfram á þessum vettvangi eða snúa mér aftur að lögfræðinni," segir Sigurður Kári. Honum hafi þótt staða aðstoðarmanns Bjarna mest spennandi kosturinn, enda hafi þeir verið nánir samstarfsfélagar bæði í lögmennsku og stjórnmálum.

Sigurður segist síður en svo hafa verið kominn með nóg af stjórnmálunum. „Þetta er nú einhvernvegin þannig að maður fær bakteríuna og það er erfitt að losna við hana. Þó svo að úrslit kosninganna hafi verið með þeim hætti sem raun bar vitni, þá er ég þeirrar skoðunar að mínu erindi á þessu sviði sé ekki lokið," segir Sigurður, ánægður með nýja starfið.

Sigurður Kári sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2003 til 2009. Sigurður Kári er lögfræðingur að mennt og starfaði sem lögmaður frá árinu 1998 til 2003 þegar hann tók sæti á Alþingi, en hann hefur sinnt margvíslegum félagsstörfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×