Erlent

Þrettán hundruð börn með blýeitrun

Manganverksmiðja var opnuð á síðasta ári í minna en 500 metra fjarlægð frá grunnskóla.
fréttablaðið/AP
Manganverksmiðja var opnuð á síðasta ári í minna en 500 metra fjarlægð frá grunnskóla. fréttablaðið/AP

Meira en þrettán hundruð börn hafa greinst með blýeitrun vegna mengunar frá manganbræðslu í bænum Wenping í Hunan-héraði. Aðeins fáeinir dagar eru frá því hundruð manna greindust með blýeitrun vegna mengunar frá annarri verksmiðju í Kína.

Blýeitrun barnanna hefur vakið óróa og gagnrýni almennings í landinu, sem var órótt fyrir vegna hvers hneykslismálsins á fætur öðru þar sem öryggi barna hefur verið í hættu. Skemmst er að minnast bæði jarðskjálftans mikla á síðasta ári þegar fjöldi skóla hrundi og skemmdra mjólkurvara sem seldar voru víða um land.

Manganverksmiðjan í Wenping var tekin í notkun í maí á síðasta ári án þess að tilskilin leyfi væru fyrir hendi. Grunnskóli er í innan við 500 metra fjarlægð frá verksmiðjunni. Tveir yfirmenn í verksmiðjunni hafa verið handteknir vegna málsins.

Í júlí byrjaði að vakna grunur um blýeitrun þegar mörg börn fengu kvef og aðra kvilla, og það fékkst svo staðfest nú í vikunni, þegar sjötíu prósent allra barna sem prófuð voru reyndust hafa orðið fyrir eitrun.

Blýeitrun getur skemmt bæði taugakerfi og æxlunarfæri og valdið minnistapi og háum blóðþrýstingi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×