Innlent

Ríkið borgar málskostnaðinn

 Allnokkur þjóðlendumál í Vopnafjarðarhreppi hafa endað fyrir dómstólum. 
Fréttablaðið/Sig.Jökull
Allnokkur þjóðlendumál í Vopnafjarðarhreppi hafa endað fyrir dómstólum. Fréttablaðið/Sig.Jökull

Íslenska ríkið var sýknað af kröfum landeigenda í tveimur þjóðlendumálum í Vopnafirði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í báðum tilvikum höfðu sækjendur fengið gjafsókn. Greiðist sá kostnaður, samtals 2,1 milljón króna, úr ríkissjóði.

Annars vegar var staðfestur úrskurður óbyggðanefndar um að landsvæði norðvestan Kistufells væri þjóðlenda og utan landamerkja jarðanna Þorvaldsstaða og Hamars í Vopnafirði. Um leið var fallist á að sama landsvæði væri í afréttareign Þorvaldsstaða og Hamars.

Hins vegar var staðfestur úrskurður um að land Mælifells og Selsárvalla í Vopnafirði væri þjóðlenda, en afréttareign stefnenda í málinu.

Landeigendur höfðuðu málin tvö, en auk einstaklinga eiga þar hlut að máli Veiðiklúbburinn Strengur ehf., Sunnudalur ehf., Heljardalur ehf. og Hofsárdalur ehf. Farið var fram á að úrskurðir óbyggðanefndar frá maílokum 2007 yrðu felldir úr gildi.

Í úrskurði um gjafsóknarkostnað kemur fram að litið sé til þess að lögmaðurinn sem fór með málið fyrir hönd sækjenda hafi annast rekstur fleiri sambærilegra mála vegna aðliggjandi landsvæða í Vopnafirði. Í öðru málinu var kostnaðurinn 1,0 milljón króna en 1,1 milljón í hinu. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×