Viðskipti innlent

Slökunin jafngildir hálfu prósentustigi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri (í miðið) kynnti ákvörðun peningastefnunefndar um vexti á fundi í bankanum í gærmorgun. Honum á hægri hönd situr Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og á vinstri hönd Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri (í miðið) kynnti ákvörðun peningastefnunefndar um vexti á fundi í bankanum í gærmorgun. Honum á hægri hönd situr Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og á vinstri hönd Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans. Fréttablaðið/Anton
Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um vaxtabreytingar er í samræmi við fyrri yfirlýsingar um hægfara tilslökun peningalegs aðhalds. Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri þegar vaxtaákvörðun bankans var kynnt í gærmorgun.

„Ég tel að þetta sé varleg lækkun. Við metum sem svo að þetta jafngildi slökun í peningalegu aðhaldi í kringum 0,5 prósentustig,“ sagði Már.

Peningastefnunefnd ákvað að lækka vexti á viðskiptareikningum innlánsstofnana um 0,5 prósentustig í 8,5 prósent. Þá var ákveðið að Seðlabankinn myndi áfram efna til útboða á innstæðubréfum til 28 daga með 9,75 prósenta hámarksvöxtum, en í því er sögð felast 0,5 prósentustiga lækkun hámarksvaxta innstæðubréfa. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga verða lækkaðir um 1,0 prósentustig í 10 prósent og daglánavextir um 1,5 prósentustig í 11,5 prósent.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur jafnframt fram að gengi krónunnar hafi í meginatriðum haldist stöðugt með takmörkuðum inngripum Seðlabankans og engum frá byrjun nóvembermánaðar. „Þéttari reglugerð, aukið eftirlit og virkari framfylgd reglna hafa leitt til þess að erfiðara er að fara í kringum gjaldeyrishöftin en áður.“

Í máli Más kom fram að afar erfitt væri að spá fyrir um þróun gengisins og rifjaði hann upp gamalt tilsvar frá því að hann var sjálfur aðalhagfræðingur bankans í þá veru að gæti hann spáð fyrir um gengið þá væri hann ekki í starfi heldur ríkur maður á sólarströnd.

Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur vísaði í spá bankans um að gengi krónu gagnvart evru myndi haldast nálægt 180 krónum fram á mitt næsta ár, en færast svo hægt nær 170 krónunum.

Forsvarsmenn bankans voru þó sammála um að gengið gæti haldist veikt lengi vel, jafnvel gæti tekið ár eða áratugi fyrir gjaldmiðil að ná jafnvægisgengi eftir hrun.

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri áréttaði að óvissa væri um endanlega skuldastöðu þjóðarinnar, jafnvel þó svo að draga megi bankana frá og hrein skuldastaða þá í raun betri en fyrir hrun, um 38 prósent af landframleiðslu.

„Á hinn bóginn verður einhver hluti af þessu skuldir hins opinbera sem er aftur verra,“ sagði hann og kvað samband skulda þjóða og gengis gjaldmiðilsins afar flókið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×