Erlent

Minningarkerti við iðnskólann í Kauhajoki strax á fimmtudag

MYND/AP

Komið hefur í ljós að einhver kveikti á minningarkerti við iðnskólann í Kauhajoki í Finnlandi á fimmtudag og leiddi það meðal annars til þess að lögregla kallaði Matti Saari, sem myrti tíu manns í gær, til yfirheyrslu. Frá þessu greinir Huvudstadbladet og hefur eftir lögreglustjóranum.

Kveikt var á fjölmörgum minningarkertum við skólann í gær vegna morðanna en blaðið vekur athygli á því að eitt slíkt hafi þegar logað á fimmtudaginn var. Nemandi við skólann mun hafa rekið augun í það og eftir að hafa leitað á Netinu fann hann myndböndin á YouTube þar sem Saari sést æfa sig með skammbyssu. Sá gerði lögreglu viðvart sem yfirheyrði Saari í fyrradag. Saari neitaði hins vegar að hafa kveikt á minningarkertinu.

Komið hefur í ljós að lögreglumaðurinn sem yfirheyrði Saari var sá sami og veitti honum bráðabirgðabyssuleyfi í ágúst, en sá á að baki 30 ára reynslu í starfi. Hann er nú farinn í veikindaleyfi.

Ríkissaksóknara Finnlands hefur verið falið að rannsaka hvort lögreglan hafi gert mistök þegar ákveðið var að taka ekki byssuleyfi af Saari þegar hann var yfirheyrður. Lögreglustjórinn telur að lögreglumaðurinn hafi gert sitt besta og segir það ekki víst að koma hefði mátt í veg fyrir fjöldamorðin ef byssan hefði verið tekin af Saari því hann hefði undirbúið sig í langan tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×