Viðskipti erlent

Sænsk stjórnvöld með 1500 milljarða björgunarpakka

Sænska ríkisstjórnin kynnti í morgun aðgerðir sem miða að því að styðja við bakið á bönkum landsins í þeirri fjármálakreppu sem nú er að ganga yfir heiminn.

Alls verða 1.500 milljarðar sænskra króna, jafnvirði um 22.500 milljarða íslenskra, til reiðu fyrir sænska banka. Munu lán standa bönkunum til boða fram til 30. apríl á næsta ári og verða lánin til allt frá þremur mánuðum til fimm ára. Ef bankar nýta sér lánamöguleikann fylgja því ýmis skilyrði, þar á meðal launatakmarkanir á hendur stjórnendum bankanna.

Reiknað er með að lánin verði til reiðu í næstu viku en bæði sænska þingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þurfa að leggja blessun sína yfir áætlunina. Svíar fylgja með þessu í fóspor Dana og Norðmanna sem þegar hafa gripið til aðgerða til varnar sínu bankakerfi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×