Skoðun

Gefins þrotabú

Nú berast almenningi fréttir af því að ,,nýju" bankarnir hafi verið að endurselja aðilum sem farnir eru í þrot, gömlu fyrirtækin þeirra á bakvið luktar dyr. Ekkert auglýst! Ekkert uppi á borðum! Í Kastljósi 10. desember síðastliðinn var fjallað um að Apple-verslanirnar, hérlendis og á Norðurlöndunum, hefðu ekki verið auglýstar til sölu, heldur hefði verið samið við fyrrum eigendur um kaup á þrotabúinu. Að sögn skiptastjóra lá svo mikið á af því verslanirnar máttu ekki loka svo verðmæti færu ekki forgörðum. Þá má spyrja: Gat bankinn ekki rekið verslanirnar í nokkrar vikur á meðan reynt var að fá gott verð fyrir þær, hvort sem væri hér innanlands eða erlendis? Eiga þeir aðilar sem fóru með félag í þrot allt í einu nóga peninga til að kaupa þrotabúið?

Svipað var uppi á teningnum nokkrum dögum fyrr, þegar fyrirtækið BT var selt. Þá keyptu Baugsmenn fyrirtækið á bakvið luktar dyr. Annað tilboð barst reyndar í verslanirnar frá fyrrum starfsmönnum sem vildu reyna að tryggja sem flestum áframhaldandi vinnu og rekstur verslananna. Sagan segir að tilboði starfsmannanna hafi verið tekið af miklu tómlæti og fyrirtækið verið sett undir Haga sem hafa nú lokað öllum verslunum BT nema tveimur (einni í Reykjavík og annarri á Akureyri) og hafa ekki tekið ákvörðun um hvort verslanirnar verði reknar áfram. Ætli þeir hafi kannski hugsað sér að selja núverandi lager um jólin, loka síðan og græða á öllu saman?



Ekki boðleg vinnubrögðVið sjáum öll að svona vinnubrögð ganga ekki. Það verður að tryggja að allt sé uppi á borðum og að almenningur geti fylgst með því hvernig mál eru afgreidd. Þessi og önnur viðskipti sem eru væntanlega í farvatninu, þarf að rannsaka strax, því við þurfum að tryggja að spillingunni linni. En raunveruleikinn er víst annar. Það á aðeins að rannsaka aðdraganda og orsök bankahrunsins ,,svo draga megi lærdóm af því sem gerðist". Núna á að koma út þeim fyrirtækjum sem bankarnir hafa eignast og eins og Lúðvík Bergvinsson talaði um í Kastljósi 9. desember síðastliðinn þá liggur mikið á og það verða örugglega gerð fjölmörg mistök í ferlinu. Við erum nú heldur betur farin að fá nasasjón af því. Lúðvík mælti jafnframt með að farin yrði ,,Sænska leiðin" sem að hans sögn var þannig að þegar bankakreppa reið yfir Svíþjóð og fyrirtæki voru komin í þrot, þá var samið við viðkomandi aðila um áframhaldandi rekstur. Ætti þá ekki að fá sænska sérfræðinga með reynslu til að stýra aðgerðum? Ónei, okkur verður eflaust boðið upp á heimatilbúið ,,íslenskt" afbrigði af ,,sænsku" aðferðinni.

Óviðunandi hagsmunatengslEkki fer þetta vel af stað og alla ábyrgð ber auðvitað viðskiptaráðherra sem ætti að taka af miklu meiri hörku á vinnubrögðum bankanna og skipta út lykilfólki sem var í nánum samskiptum við fyrirtæki og stærri viðskiptavini gömlu bankanna. Jafnframt þarf að rannsaka tengsl starfsmanna bankanna við þessa aðila. Hverjir hafa t.d. þegið utanlandsferðir, laxveiðiferðir eða snekkjusiglingar á kostnað þeirra fyrirtækja sem nú þurfa að ná samningum við nýju bankana? Það sama á við um þá útrásarvíkinga sem hafa skuldsett þjóðina til margra áratuga. Þeir eiga ekki að fá að kaupa neitt fyrr en mál þeirra hafa verið rannsökuð. Hverjum steini þarf að velta við og allt á að vera uppi á borðum. Það er óþolandi að hlusta á viðskiptaráðherra og aðra ráðherra nota sömu gömlu innihaldslausu frasana um að þetta hafi verið ákveðið ,,á viðskiptalegum forsendum" sem á að hljóma mjög gáfulega, en hljómar miklu frekar eins og viðkomandi ráðherra viti ekkert um málið.

Stöðvum innherjasukkið straxAð lokum langar mig að rifja upp skrif Jóns Steinssonar lektors í hagfræði við Columbia háskólann í New York í Fréttablaðinu 3. desember síðastliðinn. Þar segir hann: ,,..að stjórnvöld þurfi að taka alvarlega hættuna á að innherjar rýri verðmæti þeirra fyrirtækja sem ríkisbankarnir eru lánadrottnar í með óeðlilegum viðskiptaháttum". Jafnframt segir hann: ,,..að stjórnvöld verði að tryggja að þeir sem taka ákvarðanir um skuldaniðurfærslur láti ekki undan þrýstingi innherjanna og færi skuldirnar of langt niður". Ég dreg ekki í efa að þessar ráðleggingar byggi Jón á rannsóknum sem gerðar hafa verið á hvað hefur gerst í öðrum löndum þegar svipaðar aðstæður hafa komið upp og til þess eru vítin að varast þau.

Höfundur er varaformaður Íslandshreyfingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×