Viðskipti erlent

Þekktur breskur lögmaður telur grundvöll fyrir lögsókn Kaupþings

Þekktur breskur lögmaður, John Jarvis QC, sem er sérfræðingur í bankalöggjöf Bretlands telur grundvöll fyrir lögsókn Kaupþings á hendur bresku ríkisstjórninni.

Áður hefur komið fram að Kaupþing hefur ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Grundberg Mocatta Rakison til þess að vinna forkönnun á lögsókn gegn breska ríkinu. Stofan hefur svo aftur leitað til Jarvis um ráðgjöf í málinu.

Í tilkynningu á heimasíðu lögmannsstofunnar segir að þeir muni kanna kringumstæðurnar á færslu eigna Singer & Friedlander til ING Direct með einhliða ákvörðun breskra stjórnvalda. Jafnframt muni stofan vera ráðgefandi við önnur skaðabótamál á hendur breska ríkinu.

Á fundi sem fulltrúar stofunnar áttu með John Jarvis kom m.a. fram að mögulegt sé að gera kröfu á hendur bresku stjórninni fyrir að hafa tekið eignir bankans í Bretlandi yfir með ólöglegum hætti.

Í því sambandi bendir stofan á að aðgerðin gegn bankanum hafi ekki fallið undir lagaramma um bankalög í Bretlandi.

Þá segir stofan einnig mögulegt að gera kröfu á hendur breska ríkinu vegna brota opinberra starfsmanna og geti skaðabætur þar numið milljörðum punda.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×