Erlent

Minningarathöfn um fórnarlömbin í Kauhajoki

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Aðstandendur syrgja látna ástvini sína við skólann.
Aðstandendur syrgja látna ástvini sína við skólann. MYND/AP

Minningarathöfn um fórnarlömb skotárásarinnar í iðnskólanum í Kauhajoki á þriðjudag var haldin þar í dag. Tarja Halonen, forseti landsins, var meðal viðstaddra auk nokkurra ráðherra. Athöfninni var sjón- og útvarpað beint.

Hundruð manna sóttu athöfnina og minntust hinna tíu sem féllu fyrir hendi Matta Saari sem að lokum stytti sér aldur. Finnskir stjórnmálamenn, félagsráðgjafar og prestar hafa hvatt ríkisstjórnina til að herða lög um aðgengi almennings að skotvopnum auk þess sem þeir benda á að fylgjast þurfi mun betur með því sem fram fer á Netinu en bæði Matti Saari og Pekka-Eric Auvinen, sem skaut átta manns til bana í Jokela-skólanum í Tuusula í fyrra, höfðu birt myndbönd af sér við skotæfingar á myndskeiðavefnum YouTube.

„Sorgin liggur þungt á okkur. Nú er tímabært að horfast í augu við okkar innri mann," sagði biskupinn Simo Peura sem leiddi minningarathöfnina. „Ættum við að gera hlutina allt öðruvísi en við gerum? Hvers konar samfélag höfum við skapað?"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×