Erlent

Skiptar skoðanir um byssueign í kjölfar fjöldamorðsins

Skiptar skoðanir eru meðal Finna um hvort herða eigi byssulöggjöf í landinu eftir fjöldamorð í skóla í vesturhluta landsins í gær. Engar breytingar voru gerðar á lögunum eftir sams konar árás í fyrra og enn geta allt niður í fimmtán ára börn eignast byssur án mikilla vandkvæða.

Þrjátíu og tvær byssur eru á hverja hundrað Finna samkvæmt upplýsingum frá finnska innanríkisráðuneytinu. Talið að um ein komma sex milljón skotvopna sé í landinu þar af nærri þrjú hundruð þúsund skammbyssur.

Ungmenni á alrinum fimmtán til átján ára geta fengið byssuleyfi með samþykki forráðamanna.

Hávær krafa var um að breyta því og setja markið við átján ára aldur eftir morðin í menntaskólanum í Tuusula í fyrra. Lögunum var þó ekki breytt. Krafan varð enn háværari eftir morðin í skólanum í Kauhajoki í gær.

Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, vill herða löggjöfina og telur koma til greina að takmarka skammbyssueign almennings. Finnar gætu hugsanlega farið þá leið að innkalla byssur líkt og íslensk yfirvöld gerðu árið 1968 eftir að leigubílsstjóri var myrtur með sjaldgæfu skotvopni. Fjölda vopna var skilað. Ekki eru þó allir Finnar á því að herða eigi löggjöf og enn aðrir vilja breytta löggjöf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×