Viðskipti erlent

Hollenskt hérað fær lögtak í eigum Landsbankans í Noregi

Fógetarétturinn í Osló í Noregi hefur fallist á kröfu frá héraði í Hollandi um lögtak í eigum Landsbankans. Lögtakið nær til um 12 milljarða króna og á að tryggja innistæður Hollendinganna í Landsbankanum.

Um er að ræða héraðið Noord Holland sem átti innistæður upp á rúmlega 79 milljónir evra er Landsbankinn komst í þrot. Um var að ræða skatttekjur héraðsins og settar höfðu verið inn á reikninga Landsbankans svo þær gætu safnað vöxtum þar í skamman tíma.

Hins vegar nær tryggingarsjóður innstæðna á Íslandi ekki yfir þessar innistæður og því greip stjórn héraðsins til þess ráðs að leita til fógetaréttarins í Osló.

Samkvæmt frétt á vefsíðunni E24.no er um frekar örvæntingarfulla tilraun að ræða til að ná peningunum til baka. Búast megi við fleiri slíkum málum gegn Landsbankanum, Glitni og Kaupþingi.

Fleiri héruð í Hollandi áttu innistæður svipuðum þessum í Landsbankanum. Þar sem Landsbankinn bæði á Íslandi og í Hollandi er undir stjórn skilanefnda gat hollenska héraðið ekki gert kröfu um lögtakið í þeim löndum.

Í dómsorði segir meðal annars að sú stefna íslenskra stjórnvalda að tryggja aðeins innistæður Íslendinga í framangreindum bönkum sé brot á jafnræðisreglu EES-samningsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×