Viðskipti erlent

Peningamarkaðssjóðir aldrei borgað jafn lítið og þeir íslensku

Aldrei í sögunni hafa peningamarkaðssjóðir borgað eins lítið út og þeir íslensku hafa gert eftir að þeir voru leystir upp í liðinni viku. Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við Háskóla Íslands segir fallið mikið og ábyrgð bankanna mikla.

Þann 28. október ákvað Landsbankinn að slíta peningamarkaðssjóðum sínum og greiða inn á innlánsreikninga viðkomandi einstaklinga. Flestir áttu peningabréf í íslenskum krónum og fengu þeir 68,8 prósent af bréfum sínum greidd.

Glitnir tilkynnti fyrir helgi að greitt yrði úr sjóði 9 og fær fólk því 85% af eign sinni til baka. Kaupþing greiðir úr sínum peningamarkaðssjóðum og er hlutfallið þar 85,3%. Aldrei í sögunni hafa sjóðir greitt svo lítið úr peningamarkaðssjóðum í heiminum.

Þá segir Vilhjálmur líklegt að sjóðirnir hafi í einhverjum mæli farið út fyrir sínar fjárfestingaheimildir. „Þannig ef sjóðurinn hefur átt að eiga allt að 20% í ríkisbréfum, var aðeins til 1%," segir Vilhjálmur sem segir það ekki vera í samræmi við reglur. Hann vill ekki segja hvort menn verði sóttir til saka vegna málsins.

Óljóst er hvað verður um peningamarkaðssjóði Spron og Byrs en ekki er ljóst hvenær þeir verða gerðir upp












Fleiri fréttir

Sjá meira


×