Viðskipti innlent

Arðgreiðslur minnka um helming í Kauphöllinni

Heildararðgreiðslur þeirra fyrirtækja, sem nú mynda Úrvalsvísitöluna og á annað borð greiða almennt arð, dragast saman um rúman helming á milli ára að því er fram kemur í Hálffimmfréttum Kaupþings.

„Sambærilegur samdráttur var á hagnaði þessara félaga milli ára. Hvorki FL Group né Exista greiða út arð fyrir rekstrarárið 2007 en í fyrra greiddu þessu félög samanlagðan arð upp á tæpa 26 milljarða króna. Þá ætlar Landsbankinn ekki að greiða út arð í ár nema óbeint en fyrir aðalfundi bankans liggur fyrir tillaga að lækka hlutafé bankans um 300 milljónir þannig að eigin bréf bankans, að sömu fjárhæð, verði felld niður. Þá er einnig lagt til að gefa út jöfnunarhlutabréf í bankanum að nafnverði 300 milljóna króna. Þessa aðgerð má því að vissu leyti túlka sem arðgreiðslu til hluthafa," segir í Hálffimmfréttum.

Kaupþingsmenn benda einnig á að þrátt fyrir að hagnaður Kaupþings, Straums og Bakkavarar hafi dregist saman á milli ára „greiða þessi félög hærri arð í ár en í fyrra sem hlutfall af heildarhagnaði. Kaupþing greiddi 21% af hagnaði félagsins 2007 í arð samanborið við 12% í fyrra en hjá Bakkavör var samsvarandi hlutfall 20% nú en 11% í fyrra. Hjá Straumi hækkar hlutfallið í 30% nú í stað 17% áður. Aðeins tvö fyrirtæki greiða hærri arð nú en í fyrra en þau eru Bakkavör og Kaupþing. Þess má geta að SPRON, sem er ekki meðal félaga í Úrvalsvísitölunni, greiddi út allan rekstrarhagnað ársins 2006 í formi arðs en félagið var þá ekki skráð á hlutabréfamarkað."

Í ár er algengara að hluthöfum bjóðist að taka hluta arðsins, jafnvel allan, út í bréfum viðkomandi félags," segir einnig. „Til að mynda gafst hluthöfum Glitnis kostur á að fá allt að helmingi arðs síns greiddan í formi hlutafjár í bankanum. Hluthafar SPRON gátu fengið sinn arð að hluta eða öllu leyti greiddan í formi hlutabréfa og þá fengu hluthafar í Atorku Group arð annars vegar í formi hlutabréfa og hins vegar í peningum. Arðgreiðsla Straums verður að öllu leyti greidd með hlutabréfum í félaginu. Almennt virðast því fyrirtæki tregari til að greiða arð í formi lauss fjár en ella í núverandi lausafjárkreppu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×