Erlent

Vilja að innanríkisráðherrann taki pokann sinn vegna fjöldamorða

MYND/AP
Stjórnarandstaðan á finnska þinginu krefst þess nú að innanríkisráðherrann Anne Holmlund segi af sér og taki þannig ábyrgð á frammistöðu lögreglunnar í tengslum fjöldamorðin í Kauhajoki. Þar létust átta konur og tveir menn í skotárás 22 ára nemanda við iðnskóla í bænum.

 

 

Stjórnarandstæðingurinn Annika Lapintie bendir á að þetta sé í annað sinn á innan við ári sem ungur maður gangi berserksgang með skotvopn í landinu og að Holmlund hafi ekki í beitt sér fyrir breytingu á vopnalögum í landinu í millitíðinni. Þá segir annar stjórnarandsstæðingur, Liisa Jaakonsaari, að lögreglan hafi ekki staðið sig í stykkinu og á því beri Holmlund ábyrgð. Holmlund segist hins vegar ekki ætla að víkja.

 

 

Fram hefur komið að lögregla vissi af hatursfullum YouTube-myndböndum morðingjans Matti Saari strax á föstudag en kallaði hann ekki til yfirheyrslu fyrr en á mánudag. Þá þótti ekki ástæða til þess að svipta hann bráðabirgðabyssuleyfi eða taka af honum byssuna og hafa lögregluyfirvöld matt verja þessa framgöngu í finnskum fjölmiðlum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×