Viðskipti erlent

Nyhedsavisen kemur áfram út eftir sumarfrí

Samkvæmt fjármálastjóra Nyhedsavisen hefur samkomulag milli eigenda blaðsins náðst og því muni útgáfa blaðsins halda áfram eftir sumarfrí.

Mikil ólga hefur umleikið danska fríblaðið Nyhedsavisen að undanförnu. Áður óþekkt skuldabréf í eigu Stoða Invest upp á 4 milljarða íslenskra króna setti strik í reikninginn við endurfjármögnun blaðsins. Morten Lund, aðaleigandi, hefur undanfarið leitað leiða til að fá nýtt fjármagn inn í reksturinn en um 2 milljarða þarf til að hægt sé að halda honum áfram.

Uppi voru raddir að ekki hefði náðst samkomulag milli Morten Lund og Stoða Invest hvernig best væri að standa að því. Lars Lindstrom, fjármálastjóri blaðsins, segir í dönskum fjölmiðlum í dag að samkomulag hafi náðst milli eigenda. Stoðir Invest hafi breytt skuldabréfinu til að reyna að fá nýja fjárfesta inn í reksturinn.

Ekki er gefið upp hversu stórum hluta skuldabréfsins var breytt eða hvort Stoðir Invest, sem fyrir á 49% í blaðinu, sé nú orðinn meirihlutaeigandi að nýju.

Gert er ráð fyrir að Nyhedsavisen skili inn ársreikningi í dag en að öðrum kosti munu eftirlitsstofnanir í Danmörku leysa útgáfuna upp.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×