Erlent

Byssumaður var yfirheyrður vegna YouTube myndbanda í gær

Finnska ríkisstjórnin hefur staðfest að maðurinn sem sést á myndböndum á YouTube skjóta af skammbyssu sé sá sem lét til skarar skríða í iðnskóla í bænum Kauhajoki í Finnlandi í morgun. Hann myrti níu manns sem allir eru sagði nemendur við skólann.

Alls voru fjögur myndbönd sett á vefinn af manninum að æfa sig með skammbyssuna en við eitt þeirra stóð: „Lífið er stríð og sársauki. Þú munt berjast í einn í þínu persónulega stríði." Þá er að finna annað myndband með yfirskriftinni „Þú munt deyja næst".

Finnska ríkisútvarpið hefur eftir Anne Holmlund innanríkisráðherra að lögreglan hafi í gær rætt við manninn vegna myndbandanna sem hann setti á Netið. Ekkert hefði þó komið fram sem kallað hefði á það að vopnið yrði tekið af manninum. Hann hafði tímabundið leyfi fyrir byssunni sem var af hlaupvídd 22.

Árásarmaðurinn, sem er um tvítugt er sagður hafa verið nemandi við skólann í þessum 15 þúsund manna bæ. Hann kom inn í stofu þar sem nemendur voru að taka próf og hóf skothríð. Eftir það reyndi hann að svipta sig lífi. Það tókst ekki og liggur hann nú milli heims og helju á Háskólasjúkrahúsinu í Tampere.

Finnska þjóðin var enn í sárum eftir mannskæða skotárás í Jokela-menntaskólanum í Tuusula skammt frá Helsinki í nóvember í fyrra þegar fréttir bárust af árásinni.

Tvö myndbandanna má sjá hér og hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×