Viðskipti innlent

Kreditkortin varasöm erlendis - Pundið á 300 krónur

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Gengi gjaldmiðla hjá kortafyrirtækjum er í engu samræmi við gengi seðlabankans og viðskiptabankanna. Pundið, sem kostar í kringum 190 krónur hjá viðskiptabönkunum kostar 291 krónu ef hún er keypt með Vísakorti, og 303 krónur með Masterkorti. Evran, sem kostar um 150 krónur hjá viðskiptabönkunum kostar í dag 226 krónur hjá Valitor, og 237 krónur hjá Mastercard. Svipaða sögu er að segja af öðrum gjaldmiðlum.

Bergsveinn Sampsted framkvæmdastjóri kortalausna hjá Valitor segir þetta gengið sem VISA bauðst í gær þegar það verslaði þann gjaldeyri sem fyrirtækið þarf til að gera upp við kaupmenn erlendis vegna kaupa Íslendinga.

Gengið hjá kortafyrirtækjunum er uppfært einu sinni á dag. „Gengið sem við birtum er gengið sem markaðarnir úti voru að höndla með í gær eftir lokun markaða hjá okkur," segir Bergsveinn. Hann segir þetta fyrirkomulag hafa gefist vel hingað til, en síðustu dagar hafi verið afar sérstakir. „Þetta er ekki eðlilegt ástand," segir Bergsveinn.

Kaupmenn senda færslur ekki endilega inn um leið og þær eru gerðar. Kaupi ferðamaður sér kaffibolla í Róm á sunnudegi og borgi fyrir með kreditkorti, getur hann auðveldlega lent í því að borga fyrir hann á því gengi sem er í gildi á þriðjudag. Í dag er ljóst að sá sopi væri dýr.

Korthafar bera sjálfir gengisáhættuna í þessum tilfellum. Bergsveinn segir það sama gilda um gengishagnað í þeim tilfellum sem krónan styrkist frá því kaup voru gerð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×