Innlent

Hitabylgjur og úrhelli dynja á Norðurlandabúum

Norðurlandabúar eiga eftir að upplifa lengri hitabylgjur og meira regn. Til dæmis er gert ráð fyrir hitatímabilum í nánustu framtíð sem standa munu níu dögum lengur en í dag.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Norræna ráðherranefndin hefur látið gera og greint er frá á norden.org

Markmiðið með skýrslunni var að greina afleiðingar þess fyrir loftslag á Norðurlöndum að andrúmsloft jarðar á eftir að hlýna um tvær gráður fram til ársins 2100. Skýrslan fjallar um afleiðingar hitabreytinganna, m.a. með tilliti til sjávarhæðar, landbúnaðar og skógarhöggs, fiskveiða, samgangna, ferðamennsku og náttúruhamfara.

Samkvæmt rannsókninni eru merki um að náttúruhamfarir muni nokkrum sinnum verða á Norðurlöndum, meðal annars flóð, ofsaveður, skriðuföll og grjóthrun.

Gert er ráð fyrir að yfirborð sjávar muni hækka verulega, en jafnvel smávægileg hækkun eykur hættu á flóðum á svæðum sem áður voru talin örugg. Hækkun hitastigs sjávar mun samkvæmt skýrslunni hafa í för með að sumir fiskistofnar stækka, en jafnframt geta aðrar tegundir horfið frá ákveðnum svæðum vegna hlýnunar.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×