Innlent

Íslensk stjórnvöld hafa þungar áhyggjur af ástandinu í Tíbet

Íslensk stjórnvöld lýsa yfir þungum áhyggjum af ástandinu í Tíbet og votta fjölskyldum fórnarlamba þar samúð sína. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Evrópusambandinu sem Ísland hefur gerst aðili að.

Í yfirlýsingunni er þess krafist að allir aðilar sýni stillingu. Kínversk stjórnvöld eru hvött til að beita ekki valdi gegn þeim aðilum sem taka þátt í mótmælunum og mótmælendur sömuleiðis beðnir um að beita ekki ofbeldi.

Fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins að mikilvægt sé að fólk hafi tjáningarfrelsi og rétt til friðsamlegra mótmælaaðgerða og eru kínversk stjórnvöld beðin um að bregðast við mótmælunum í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar meginreglur lýðræðisins. Lýst er yfir eindregnum stuðningi við að friðsamlegar sættir náist milli kínverskra stjórnvalda og Dalai Lama og fulltrúa hans. Kína er einnig hvatt til að taka á mannréttindamálum í Tíbet.

Í lokin eru báðir aðilar hvattir til þess að efna til umræðna með það fyrir augum að ná fram langtímalausn sem væri ásættanleg fyrir alla og myndi jafnframt virða tíbetska menningu og trúarbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×