Erlent

Kosið á Spáni

Jose Luis Rodriguez Zapatero forsætisráðherra.
Jose Luis Rodriguez Zapatero forsætisráðherra. MYND/AP

Spánverjar ganga að kjörborðinu í dag og kjósa til þings. Kannanir benda til þess að stjórn sósíalista haldi velli - en naumlega þó.

Efnahags- og innflytjendamál hafa verið ofarlega á baugi í kosningabaráttunni í þetta sinn - ólíkt 2004 þegar hryðjuverkin í Madríd voru efst í huga kjósenda og urðu til að fella Jose Mari Aznar, forsætisráðherra, og mið- og hægristjórn hans. Við völdum tóku sósíalsita og Jose Luis Rodriguez Zapatero varð forsætisráðherra.

Á kjörtímabilinu hefur hagvöxtur minnkað eftir mikla uppsveiflu síðasta áratug. Verðbólga hefur ekki verið jafn mikil í tíu ár og ekki fleiri atvinnulausir í átta ár. Íhaldsmenn hafa fyrir vikið lagt áherslu á málefni innflytjenda sem hafa hingað til ekki verið jafn áberandi í spænskum stjórnmálum.

Sósíalistar hafa á sama tíma lagt áherslu á breytingar sem þeir hafa fengið í gegn í átt til frjálsræðis. Þeir hafa fest í lög hjónabönd samkynhneigðra, jafnrétti kynjanna og að hægt sé að hraða skilnuðum.

Ekki hefur kosningabaráttan þótt spennandi. Zapatero þykir ekki sérlega litríkur stjórnmálamaður en þó með meiri kjörþokka en andstæðingur hans, Mariano Rajoy, leiðtogi Íhaldsmanna. Frambjóðendur hafa hvatt kjósendur til að nýta kosningarétt sinn í dag en þeir óttast að kjörsókn verði töluvert minni nú en áður. Kannanir benda til þess að sósíalistar haldi velli en með naumindum þó. Kjörsókn gæti þó haft áhrif þar. Telja stjórnmálaskýrendur að ef mjótt verði á munum gæti jafnvel farið að minni flokkar á þingi - svo sem eins og Sameinaðir vinstri menn eða þjóðernisflokkar Baska og Katalóna - ráði hvernig stjórn verði mynduð.

Engin kosningabarátta var háð á föstudaginn - síðasta daginn sem það var leyfilegt - vegna morðs á fyrrverandi borgarfulltrúa sósíalista í bænum Mondragon í Baskahéruðum Spánar á föstudag. Basknesku aðskilnaðarsamtökunum, ETA, er kennt um. Ódæðið hefur varpað skugga á kosningabaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×